Lífið

Sextán ára í trompetnám til Bandaríkjanna í haust

Hinn stórefnilegi Baldvin er á leiðinni í trompetnám til Michigan í Bandaríkjunum í haust.
Hinn stórefnilegi Baldvin er á leiðinni í trompetnám til Michigan í Bandaríkjunum í haust. fréttablaðið/valli
„Við treystum honum til að gera þetta. Það þarf mikið til að afvegaleiða hann en við munum auðvitað sakna hans,“ segir Oddur Björnsson, faðir Baldvins Oddsonar sem er á leið í trompetnám í haust til Michigan í Bandaríkjunum, aðeins sextán ára.

Baldvin er einn efnilegasti trompetleikari landsins. Hann var einleikari á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar hann var einungis þrettán ára og lauk á dögunum fyrri hluta framhaldsprófs frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar með hæstu einkunn, 9,70. Honum hefur verið boðin þátttaka í meistaranámskeiði við Center For Advandced Musical Studies í New Hampshire í Bandaríkjunum og mun dvelja þar í tvær vikur í júní. Aðeins örfáir á hans aldri fá að taka þátt í námskeiðinu.

Baldvin hlakkar mikið til að geta einbeitt sér að trompetleiknum í Interlochen Arts Academy í Michigan, sem er nokkurs konar listmenntaskóli. „Þetta verður allt annað að geta vaknað átta á morgnana og byrjað að spila,“ segir Baldvin, sem lauk nýlega tíunda bekk úr Hagaskóla. Spilamennskan stendur yfir frá hálfníu til tvö á daginn og eftir það taka við kjarnafög á borð við ensku og stærðfræði. Námið stendur yfir í tvo vetur og kostar það fjórtán milljónir króna. Þar með er ekki öll sagan sögð því faðir hans hefur unnið hörðum höndum að því að fá sem mest af skólagjöldunum felld niður og vantar aðeins eina og hálfa til tvær milljónir í viðbót til þess að endar nái saman.

Gangi námið vel í Michigan vonast Baldvin til að komast að í góðum tónlistarháskóla í Bandaríkjunum þar sem hann getur einbeitt sér enn frekar að trompetleiknum. „Nemendur í þessum skóla landa yfirleitt góðum skólum í framhaldinu. Við bindum vonir við að hann fái góða þjálfun í þessum skóla,“ segir faðir hans Oddur, sem er fyrsti básúnuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Baldvin er fjórði ættliðurinn í fjölskyldunni sem spilar á blásturshljóðfæri því bæði afi hans og langafi spiluðu á básúnu og var afi hans einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Að auki er systir hans Hildur, sem er sautján ára, efnilegur fiðluleikari.

En hvers vegna valdi hann trompetið? „Þegar ég heyrði í Philip Smith ákvað ég að verða trompetleikari. Hann er í Fílharmoníusveitinni í New York,“ segir Baldvin einbeittur á svip. Fimm ára hóf hann nám hjá trompetkennaranum Guðmundi Hafsteinssyni og hefur ekki sleppt hendinni af hljóðfærinu síðan.

Baldvin heldur útskriftartónleika sína frá Tónskóla Sigursveins í Seltjarnarneskirkju næstkomandi miðvikudag klukkan 17.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.