Innlent

Óttaðist um líf ríkisstjórnarinnar

Mynd/Anton Brink
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að hann hafi verið að óska eftir því á fundi með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í janúar, að Bandaríkjamenn slægju á puttana á fulltrúum Breta og Hollendinga í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Á þeim tíma hafi hann óttast um líf ríkisstjórnarinnar.

Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, áttu fund með Sam Watson, staðgengli sendiherra Bandaríkjanna, á Íslandi í janúar, þar sem þeir óskuðu eftir stuðningi Bandaríkjamanna í deilunni við Breta og Hollendinga, en Ríkisútvarpið greindi frá minnisblaði um þennan fund í gær.

Össur Skarphéðinsson segir að í janúar hafi ráðuneytið farið í mikla viðræðulotu við þau ríki sem Ísland eigi samskipti við, skömmu eftir að forseti Íslands synjaði Icesave lögunum staðfestingar. Í þeim samskiptum hafi ekkert verið skafið utan af hlutunum.

„Ég er hreinskiptinn sjálfur og hef talað við aðra sendimenn. Ég hvatti aðra sendimenn til að vera skorinorða í sínu máli," segir Össur. Þessi tiltekni fundur hafi verið einn af mörgum og því hafi hann ekki gert ríkisstjórninni sérstaklega grein fyrir honum.

Ríkisstjórnin hafi hins vegar vitað að því á þessum tíma að utanríkisþjónustan hafi gengið í það að skýra þá stöðu sem komin var upp eftir synjun forsetans fyrir fulltrúum annarra ríkja.

Í minnisblaði bandaríska sendiráðsins sem RÚV greindi frá í gær, er haft eftir íslensku embættismönnunum að líf ríkisstjórnarinnar væri í hættu ef Icesave lögin yrðu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu og svört mynd dregin upp af efnahagsástandinu ef svo færi.

„Á þeirri stundu sem að þessi fundur var þá var það nú mitt mat að líf ríkisstjórnarinnar væri í hættu. Ég tel að svo sé ekki lengur vegna þess að við, þ.e.a.s. stjórn og stjórnarandstaða, höfum náð góðri samstöðu um það hvernig við ætlum að reka þetta mál áfram. Þessi möguleiki var uppi á þeim tíma. Hvað varðar síðan hvernig efnahagsstaðan er máluð í þessum samtölum þá er það auðvitað þannig að þegar menn eru að reyna að knýja menn til fylgis og sýna stuðning þá draga menn upp svarta mynd."

Þetta hafi verið sagt í tengslum við þær tafir sem Bretar og Hollendingar voru að valda á afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands.

„Við vorum í reynd að fara fram á það að Bandaríkjamenn héldu áfram stuðningi sínum við okkur þar og gengu skrefi lengra og kæmu fram með opinbera yfirlýsingu og tækju afstöðu með Íslendingum," segir Össur.


Tengdar fréttir

Óttuðust þjóðargjaldþrot 2011

Þeir Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, funduðu með Sam Watson, sem stýrir sendiráði Bandaríkjanna hér á landi þar sem sendiherra hefur ekki verið skipaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×