Innlent

Lakk rispast ef aska er þurrkuð af bílum

Að ýmsu er að hyggja þegar aska er þrifin af bílum.
Að ýmsu er að hyggja þegar aska er þrifin af bílum. Mynd/Vilhelm
Rispur koma í bílalakk ef aska er þurrkuð af bílum með tusku eða kústi, segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

„Ef menn taka kúst og sópa af bílunum verða þeir mattir. Það verður að byrja á því að spúla vel af áður en bíllinn er þrifinn með svampi og sápulegi. Þannig draga menn úr hættu á því að búa til örfínar rispur í lakkið."

Özur hefur ekki heyrt af miklum lakkskemmdum á bílum eftir öskufallið á höfuðborgarsvæðinu en segir ástæðu til þess að benda á hvernig best sé að þrífa bílana.

„Askan er allt annars eðlis en ryk, hún rispar ef hún er þurrkuð af bílum og menn eiga alls ekki að spara vatnið þegar verið er að skola bílinn."

Özur bendir á að best sé að þrífa bílana strax að loknu öskufalli því komist vatn í öskuna og sól skíni á yfirborðið geti hún brennt lakkið.

Annað sem bílaeigendur eigi að forðast sé að skola ösku af rúðum með rúðupissi og þurrkum, það rispi þær. Eins eigi ekki að skrúfa niður hliðarrúðurnar.

Réttar aðferðir við öskuþrif skipta bílaeigendur máli, því fátt vegur þyngra í endursölu bíla en fallegt útlit, segir Özur.

„Fólk skoðar frekar vel útlítandi bíla en þá sem eru illa farnir, þannig að þetta er góð leið til að passa upp á verðmætin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×