Enski boltinn

Gerrard: Það er orðið erfiðara að vinna okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, lék á ný eftir meiðsli.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, lék á ný eftir meiðsli. Mynd/AFP

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er sannfærður um að liðið sé búið að snúa við blaðinu eftir slæmt gengi síðustu misserin. Liverpool náði þó aðeins markalausu jafntefli á móti Wolves í gær en fyrirliðinn reyndi að vera jákvæður.

„Þetta var pirrandi og erfiður leikur. Wolves varðist vel og völlurinn var það slæmur að hann kom í veg fyrir mikinn samleik," sagði Gerrard.

„Við vorum samt ánægðir með það hvernig að við vörðumst sem lið og við erum núna búnir að spila fimm leiki í röð án þess að tapa. Það er orðið erfiðara að vinna okkur því fyrr á tímabilinu hefðum við örugglega tapað svona leik 0-1. Við erum búnir að snúa við blaðinu," sagði Gerrard.

„Við munum halda áfram að berjast um fjórða sætið, við eigum nokkra heimaleiki á næstunni og ef við vinnum þá getum við komist þangað á ný," sagði Gerrard.

„Það eru margir í búningsherberginu sem eiga erfitt með að horfa á okkur í sjöunda og áttunda sæti í stigatöflunni en það læra allir mikið af því að fara í gegnum erfiða tíma. Við höfum horft á hvern annan og ætlum okkur að laga þetta. Það mikilvægasta í síðustu fjórum leikjum er að leikmenn hafa sýnt þrá og karakter," sagði Gerrard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×