Enski boltinn

Nóg af fréttum um Tevez í sunnudagspressunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Ensk dagblöð hafa farið mikinn í umfjöllun sinni um mál Carlos Tevez og Manchester City í morgun.

News of the World heldur því fram að Tevez sé nú á óskalista Chelsea og að félagið vilji einnig fá Edin Dzeko frá Wolfsburg. Um ógnarsterkt framherjapar yrði þar um að ræða.

Sunday Express heldur því hins vegar fram að Tevez verði áfram hjá City, að minnsta kosti til loka keppnistímabilsins eftir að samkomulag þess efnis á milli Tevez og Roberto Mancini, stjóra City. Sunday Times segir að City hafi gefið Tevez þau svör að honum verði ekki leyft að fara annað í félagaskiptaglugganum í janúar.

Mail on Sunday segir að Tevez hafi látið þau skilaboð berast til hans gamla félags, Manchester United, að hann vilji koma þangað aftur. Samkvæmt sömu heimildum eru þó líkurnar á því taldar litlar sem engar.

Sunday Mirror segir að Mancini hafi ákveðið að taka fyrirliðabandið af Tevez og að Kolo Toure verði aftur gerður að fyrirliða Manchester City. Mancini mun hafa greint Tevez frá ákvörðun sinni á fundi þeirra á föstudaginn.

Þá má geta þess að forráðamenn Manchester City munu nú ætla sér að kaupa Fernando Torres frá Liverpool fyrir 50 milljónir punda til að fylla í skarð Tevez, samkvæmt News of the World.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×