Innlent

Íslenska rústabjörgunarsveitin væntanleg heim á fimmtudaginn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgunarsveitamennirnir unnu þrekvirki við erfiðar aðstæður. Mynd/ Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Björgunarsveitamennirnir unnu þrekvirki við erfiðar aðstæður. Mynd/ Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin kemur heim næsta fimmtudagskvöld. Utanríkisráðuneytið skipuleggur nú heimkomu björgunarsveitamannanna en þeir hafa unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður á Haítí í kjölfar jarðskjálftans þar í síðustu viku.

Sveitin mun í dag vinna í rústum Montana hótelsins í Port au Prince, höfuðborg Haiti. Á hótelinu dvöldust starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sem voru við störf á Haiti og fjölskyldur þeirra þegar skjálftinn reið yfir. Talið er að um 200 manns séu enn grafnir í rústum hótelsins en litlar líkur eru taldar á að einhver sé enn á lífi. Munu þeir vinna með sömu bandarísku sveitinni og undanfarna daga.



Verða sóttir á miðvikudaginn


Þota frá Iceland Express hefur verið tekin á leigu og er áætlað að hún fari frá Íslandi á miðvikudagsmorgun og koma til baka á fimmtudagskvöld. Ferðin til Port-au-Prince verður nýtt til að flytja hjálparstarfsmenn og neyðargögn frá Rauða krossinum. 34 eru í alþjóðabjörgunarsveitinni og hefur hún meðferðis allt að 10 tonnum af búnaði.

Utanríkisráðuneytið segir að ef aukarými verði í vélinni á heimleið, sé áætlað að ferðin verði nýtt fyrir aðra, hjálparstarfmenn eða erlenda ríkisborgara, líkt og í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×