Innlent

Engin svör við þreifingum um viðræður

býður til fundar Jóhanna Sigurðardóttir fékk forystumenn stjórnmálaflokkanna til fundar við sig um Iceave í stjórnarráðinu í gær. 
fréttablaðið/stefán
býður til fundar Jóhanna Sigurðardóttir fékk forystumenn stjórnmálaflokkanna til fundar við sig um Iceave í stjórnarráðinu í gær. fréttablaðið/stefán

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, fagnar því að stjórn og stjórnarandstaða ræði um Icesave. Framsóknarflokkurinn hafi kallað eftir því í eitt og hálft ár. Hann segir liggja fyrir að undirbúa næstu skref verði Icesave hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og allt bendi til. Forystumenn flokkanna héldu fund í gær um málið og sat Birkir hann í fjarveru formanns flokksins.

Hann segir ekkert nýtt hafa komið fram í málinu. „Í raun og veru er ekki komið neitt svar frá Bretum eða Hollendingum um það hvort þeir séu tilbúnir í viðræður, heldur þvert á móti. Ég held að það sé skynsamlegt að við ræðum um málið eins og það lítur út og við framsóknarmenn göngum út frá því að þetta mál endi í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að þreifingar hafi átt sér stað við Breta og Hollendinga. Staðan sé að skýrast og hann vonist til að hún skýrist enn frekar um helgina.

Hann segir fundina með stjórnarandstöðunni hafa verið gagnlega. „Við erum búin að ganga frá því hvernig við ætlum að haga verklaginu af okkar hálfu ef til þess kemur og höfum rætt málin heil­mikið. Við höfum verið að átta okkur á því hvar við stöndum.“

Steingrímur segir það augljóst að staða Íslendinga verði þeim mun styrkari því betur samstíga sem þeir séu. En er að nást samstaða um að greiða lágmarkstryggingu, 20.887 evrur? Birkir Jón segir Íslendinga eiga að standa við sínar skuldbindingar. Flokkurinn vilji láta reyna á Ragnars H. Hall-ákvæðið, sem muni bæta stöðu landsins.

„Einfaldlega eru menn ekki komnir það langt í þessum viðræðum þvert á flokka að þeir nái samstöðu um slíkt.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×