Fótbolti

Maradona: Hleyp nakinn um miðbæ Buenos Aires ef við vinnum HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona.
Diego Maradona. Mynd/AFP
Diego Maradona, þjálfari argentínska landsliðsins, var í góðu gír eftir 5-0 sigur Argentínumanna á Kanada í undirbúningsleik liðsins fyrir HM í Suður-Afríku sem hefst í næsta mánuði.

Maradona gaf athyglisvert loforð í útvarpsviðtali daginn eftir leikinn sem var síðasti æfingaleikur liðsins fyrir HM.

„Ef við vinnum HM þá mun ég hlaupa nakinn í kringum Obelisk," sagði Maradona en Obelisk er minnisvarði í miðbæ höfuðborgarinnar Buenos Aires og einn þekktasti staður borgarinnar.

Maradona sagði þetta þegar útvarpsmaðurinn spurði hann hvað hann myndi gera ef að Argentínumenn yrðu heimsmeistarar í þriðja sinn. Maradona var fyrirliði liðsins þegar Argentínumenn unnu heimsmeistaratitilinn síðast í Mexíkó 1986.

Maradona sagði jafnframt að hann hafi ekki þorað því að láta Lionel Messi spila á móti Kanada að ótta við að hann myndi meiðast. Maradona hefur úr nóg af framherjum að velja en þeir Messi, Carlos Tevez, Gonzalo Higuain, Diego Milito, Sergio Aguero og Martin Palermo eru allir í HM-hópnum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×