Lífið

Ný kynslóð Bubba-aðdáenda

Er sá sem ég er Bubbi segir það hafa komið sér á óvart hversu vel framhaldsskólanemendur eru að sér í gömlum Bubba-lögum.Fréttablaðið/GVA
Er sá sem ég er Bubbi segir það hafa komið sér á óvart hversu vel framhaldsskólanemendur eru að sér í gömlum Bubba-lögum.Fréttablaðið/GVA
Bubbi Morthens fagnar í ár þrjátíu ára starfsafmæli sínu en í stað þess að leigja Laugardalshöllina undir stórtónleika flakkar Bubbi milli framhaldsskóla með gítarinn að vopni.

„Ég verð að fimm daga vikunnar í þrjá mánuði,“ segir Bubbi Morthens í samtali við Fréttablaðið en hann ferðast nú um landið og skemmtir nemendum í framhaldsskólum. Bubbi var á leiðinni upp í Breiðholt að skemmta nemendum FB, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, en tónlistarmaðurinn hefur þegar spilað fyrir troðfullum matsal Kvennaskólans og Menntaskólans við Sund. Bubbi gerir auðvitað meira en bara að syngja og spila á gítar því hann spjallar við krakkana um daginn og veginn af þeirri hreinskilni og hispursleysi sem hann er þekktastur fyrir. „Annars er ungt fólk alltaf ungt fólk og áhyggjur þess snúast um eitthvað allt annað en kreppuna. Þær snúast um ástina, helgina og á hvaða tónleika eigi að mæta næst.“

Bubbi hafði ekki leitt hugann að því að hann væri að skemmta fyrir þriðju kynslóð aðdáenda sinna og hugsar sig aðeins um þegar hann er spurður hvort það komi honum á óvart þegar krakkarnir syngja með í Svörtum afgan, Stál og hníf eða Rómeó og Júlíu. „Jú, ætli þetta komi manni ekki svolítið á óvart, þegar maður fer að pæla í þessu. Ég verð bara glaður og þakklátur því ef þriðja kynslóðin kann lögin þá hefur maður augljóslega náð einhverjum árangri,“ segir Bubbi en tekur fram að hann spili einnig ný lög sem ekki hafi heyrst áður.

Bubbi segir nemendurna vera spaka og það sé ekkert verið að bauna á hann. „Nei, þau klappa bara, öskra og fagna. Auðvitað hef ég gefið mönnum meira skotleyfi á mig vegna þess að ég óttast ekkert, segi það sem mér býr í brjósti og er það sem ég er. Og þegar það er þannig þá koma alltaf einhverjar hýenur og hælbítar og reyna að narta í þig vegna þess að þú ert sá sem þú ert.“ freygigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.