Innlent

Lausn Icesave deilunnar enn nátengd samstarfinu við AGS

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Í nýrri viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er því heitið að Bretum og Hollendingum verði að fullu endurgreiddur kostnaðurinn vegna Icesave-reikninganna. Lausn á Icesave virðist því enn nátengd áframhaldandi samstarfi við sjóðinn.

Þegar stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti efnahagsáætlun fyrir Íslendinga og afgreiddi lán númer tvö til íslenska ríkisins var venju samkvæmt gefin út sérstök viljayfirlýsing, svokallað letter of intent, þar sem samningsaðilar lýsa því yfir að stefnt verði að því að virða samkomulagið og markmið samstarfsins.

Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað við Breta og Hollendinga að undanförnu vegna lausn Icesave-deilunnar. Í viljayfirlýsingunni kemur skýrt fram að íslenska ríkið muni virða lágmarksinnstæðutrygginguna, þ.e 20.887 evrur fyrir hvern sparifjáreiganda. Þá segir í viljayfirlýsingunni að Ísland hafi nú þegar skuldbundið sig til þess að endurgreiða breska og hollenska ríkinu Icesave-fjárhæðina með sanngjörnum skilmálum, eins og það er orðað, að því gefnu að samkomulag náist milli ríkjanna.

Þá segir í yfirlýsingunni: Við gerum fyllilega ráð fyrir því að geta mætt þeim skilyrðum sem samningsaðilar setja fyrir áframhaldandi lánveitingum sjóðsins.

Þetta bendir til þess að íslensk stjórnvöld séu í nákvæmlega sömu stöðu og áður gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Icesave-málinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist því enn gera lausn á málinu að skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×