Innlent

Vill lækka skatta á neyslugranna bíla

Kristján Möller.
Kristján Möller.

Kristján L. Möller samgönguráðherra vill breyta skattlagningu eignarhalds og notkunar neyslugrannra bíla svo þeir verði fýsilegri kostur en nú er.

Þetta kemur fram í kafla um markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur í nýrri samgönguáætlun.

Til neyslugrannra bíla teljast til dæmis tvinnbílar, tengiltvinnbílar, bílar sem nota vistvænt eldsneyti og bílar sem nota gasolíu.

Þegar eru í gildi skattaívilnanir vegna neyslugrannra bíla en þrátt fyrir það eru slíkir bílar innan við eitt prósent af bílaflotanum.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir markmiðið jákvætt; fullt tilefni sé til að fjölga neyslugrönnum bílum í umferðinni. Hann leggur þó áherslu á að breytingar á skattkerfinu verði raunhæfar og þjóni markmiði sínu af alvöru.

Í samgönguáætluninni kemur einnig fram sá vilji Kristjáns Möllers að breyta kröfum í útboðum með það að markmiði að auka hlut vistvænna ökutækja í sérleyfisakstri og auka kröfur til opinberra stofnana og fyrirtækja um að þær noti vistvæn ökutæki í starfsemi sinni.

Fyrir utan þessi verkefni á að leita leiða og vinna að markvissri áætlun um hvernig standa megi að orkuskiptum í samgöngum sem lið í að ná loftlagsmarkmiðum stjórnvalda.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×