Innlent

Kjörstjórn taldi prófkjörsslag hóflegan

Sigurður Ásbjörnsson
Sigurður Ásbjörnsson

Kjörstjórn Samfylkingar í Reykjavík taldi ekki að frambjóðendur hefðu verið óhóflegir í prófkjörsbaráttunni árið 2006, í prófkjöri fyrir alþingiskosningar 2007. Prófkjörsreglur hefðu ekki verið brotnar.

Þetta segir Sigurður Ásbjörnsson, þáverandi formaður kjörstjórnar.

„Það sem fólki blöskraði hins vegar var prófkjörið fyrir borgarstjórnarkosningar fyrr um árið. Því var þess krafist að dregið skyldi úr kostnaði og allar okkar aðgerðir miðuðu að því. Kostnaður flokksins í seinna prófkjörinu var um fjörutíu prósent af kostnaðinum við hitt,“ segir hann.

Á þriðjudag var greint frá því í blaðinu að stjórn fulltrúaráðs flokksins hefði lagt til að hámarkskostnaður frambjóðenda við alþingisprófkjör yrði ein milljón króna. Horfið var frá þessu og látið nægja að ætlast væri til að frambjóðendur sýndu háttvísi og stilltu kostnaði í hóf.

„Þetta er hið vandræðalega orðalag, sem ekki er klappað í stein: hvað er hóf?“ segir Sigurður. Engin íhlutunar- eða refsiákvæði voru í reglunum.

Sigurður segir að kjörstjórn hafi fylgst með því meðan á baráttunni stóð að ekki væri auglýst í sjónvarpi eða farið í „fáránlegar flugeldasýningar“ eins og í fyrra prófkjörinu. Frambjóðendum hafi síðan verið gert að skila yfirliti um tekjur og kostnað. Kjörstjórn fór ekki yfir það yfirlit heldur skilaði því til Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.

Frambjóðendur í þessu prófkjöri, sem enn sitja á Alþingi, eyddu frá 530.000 krónum og upp í 5,6 milljónir króna.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×