Innlent

Meðferð lánamála flýtt í Hæstarétti

Hæstiréttur Dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í tveim málum er varða myntkörfulán var skotið til Hæstaréttar en niðurstaða héraðsdóm þykir hafa skapað mikla réttaróvissu. Fréttablaðið/gva
Hæstiréttur Dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í tveim málum er varða myntkörfulán var skotið til Hæstaréttar en niðurstaða héraðsdóm þykir hafa skapað mikla réttaróvissu. Fréttablaðið/gva

Hæstiréttur hefur ákveðið að flýta meðferð tveggja mála er varða lögmæti myntkörfulána. Komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að lánin séu ólögleg, eins og Héraðsdómur Reykjavíkur komst að í öðru málanna, þýðir það ekki að hagur allra neytenda vænkist eða að allri óvissu um lánin sé þar með eytt.

Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir að ákvörðun um flýtimeðferð hafi verið tekin þar innanhúss í samráði við lögmenn beggja málanna án þess að til hafi komið formlegt erindi. Bæði málin, sem séu að öllu leyti aðskilin, verði tekin fyrir 2. júní og dómar verði kveðnir upp samtímis, í allra síðasta lagi 21. júní, en þá verður gert réttarhlé.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, fagnar því aðspurður að málin séu tekin fyrir um sex mánuðum fyrr en annars hefði verið. „Taki rétturinn efnislega afstöðu, sem ég vona, en vísi þessu ekki frá þá verður væntanlega búið að skera úr um hvort þessi tegund myntkörfulána sé lögmæt eða ekki. Ég tel að ef svo ólíklega fari að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að gengislánin séu lögmæt þá á eftir að taka tillit til annarra álitamála tengdum þeim.“ Líklegt sé að neytendur geti í mörgum tilvikum borið skaðabótasjónarmið, forsendubrest og fleiri lagaröksemdir fyrir sig gegn kröfuhöfum sínum.

Með öðrum orðum telur Gísli að niðurstaða Hæstaréttar í málunum tveimur svari ekki nema hluta þeirra álitamála sem uppi eru. Mismunandi skilmálar séu á milli lána og þá hvort þau voru í raun erlend lán eða venjuleg lán bundin gengi erlendra gjaldmiðla. „Sem er ólögmætt að mínu mati,“ segir Gísli.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði á Alþingi nýlega að ekki væri hægt að ganga að því vísu að dómur um ólögmæti myntkörfulána myndi létta skuldavanda heimila sem greiða af slíkum lánum. Þvert á móti gætu þeir sem tóku myntkörfulán til íbúðakaupa verið í verri stöðu. Ein niðurstaðan gæti orðið sú, eftir að lán hefðu verið uppreiknuð samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, að hópur fólks gæti verið verr staddur en með þau úrræði sem boðið hefur verið upp á af bönkum og stjórnvöldum. Óljósara væri hins vegar hvað slík niðurstaða myndi þýða með skammtímalán eins og bílalán. svavar@frettabladid.is

Gylfi Magnússon



Fleiri fréttir

Sjá meira


×