Innlent

Um 550 ungmenni og börn hljóta heilaskaða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristín er formaður Hugarfars.
Kristín er formaður Hugarfars.
„Lífið fer í fokk þegar að maður fær heilaskaða," segir Kristín B.K. Michelsen, formaður Hugarfars, sem er stuðningsfélag til stuðnings heilasködduðum. Kristín á sjálf bæði son og eiginmann sem urðu fyrir heilaskaða. Sonurinn varð fyrir líkamsárás, en eiginmaðurinn varð fyrir heilaskaða í vinnuslysi.

Hugarfar ætlar að ræða stöðu ungs fólks með heilaskaða á fundi næstkomandi þriðjudag. Kristín segir málefnið brýnt enda verði 550 Íslendingar á aldrinum 0-19 ára fyrir heilaskaða á hverju ári.

Máli sínu til stuðnings vísar hún á rannsókn Jónasar G. Halldórssonar taugasálfræðings. Kristín segir að flestir fái heilahristing og jafni sig. Það séu hins vegar um áttatíu sem standi út af og þurfi endurhæfingu. Ástæðurnar fyrir heilaskaðanum geta verið margvíslegar en yfirleitt er um slys eða veikindi að ræða. Það geti þó verið um að ræða súrefnisskort í fæðingu.

Tilgangur Hugarfars er að fræða fólk um heilaskaða og vera til staðar fyrir þá sem verða fyrir slíkum skaða. Tveir úr félaginu ætla að segja frá reynslu sinni á fundinum sem verður haldinn klukkan átta þann 23 febrúar í Hátúni 10.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×