Innlent

Málningarslettumaður tekinn

Þetta er eitt þeirra húsa sem slett var málningu á. Mynd úr safni.
Þetta er eitt þeirra húsa sem slett var málningu á. Mynd úr safni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók á föstudagskvöld karlmann, sem grunaður er um að hafa skvett rauðri málningu á hús í eigu fyrrverandi bankastjóra Kaupþings, Hreiðars Más Sigurðssonar, aðfaranótt þess sama föstudags.

Maðurinn sem um ræðir var í haldi lögreglu aðfaranótt laugardagsins, yfirheyrður daginn eftir og sleppt. Lögregla gerði húsleit á heimili hans, að fengnum dómsúrskurði. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var þar lagt hald á tölvur, myndavélar og minniskubba. Eitthvað mun hafa fundist af málningu hjá manninum. Hann er á fimmtugsaldri og hefur komið við sögu lögreglu áður. Rannsóknin beinist meðal annars að því hvort maðurinn hafi slett á hús fleiri auðkýfinga, en á því hefur gengið frá því í sumar.

Auk húss Hreiðars Más hefur málningu verið slett á húseignir Björgólfs Thors Björgólfssonar, Sigurðar Einarssonar og Hannesar Smárasonar, svo dæmi séu nefnd. Skemmdarvargur undir heitinu Skap Ofsi sendi á dögunum Youtube-myndband sem sýnir öll þau skemmdarverk sem hann hefur unnið frá því eftir hrun.

- jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×