Lífið

Æðislega gaman á Evrópumótinu

Adolf Ingi Erlingsson hefur skemmt sér vel á EM í handbolta, enda árangurinn verið frábær.fréttablaðið/Eás
Adolf Ingi Erlingsson hefur skemmt sér vel á EM í handbolta, enda árangurinn verið frábær.fréttablaðið/Eás

Íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson lýsir á laugardaginn sínum öðrum undanúrslitaleik á skömmum tíma í EM-keppninni í handbolta. Hann er að vonum í skýjunum yfir góðum árangri strákanna okkar.

Síðast lýsti Adolf Ingi undanúrslitaleik Íslendinga á móti Spánverjum á Ólympíuleikunum sælla minninga. Vonandi verða heilladísirnar aftur með okkur Íslendingum á laugardaginn.

„Þetta er búið að vera æðislega skemmtilegt eins og alltaf þegar liðinu gengur vel. En þetta fer voðalega mikið eftir gengi liðsins. Þegar það gengur illa er erfitt að taka viðtölin við þá og allir eru svolítið súrir. Svo þegar það gengur vel er þetta bara óendanlega gaman,“ segir Adolf Ingi, sem var í essinu sínu í sigurleiknum á móti Norðmönnum.

Almenningur virðist skiptast dálítið í tvo hópa þegar Adolf er annars vegar. Margir eru mjög ánægðir með hann á meðan aðrir finna honum flest til foráttu. Adolf kippir sér lítið upp við það. „Mér finnst sorglegt að fólk geti ekki fundið sér eitthvað annað til að dunda sér við,“ segir hann. „Þetta er bara vinnan mín og maður reynir að gera þetta eins vel og maður getur.

Maður getur ekkert verið að velta sér upp úr því hvort maður pirri einhverja. Þegar þú ert með um og yfir 80% af þjóðinni að fylgjast með er hætt við því að af öllum þessum fjölda eru ekki allir sáttir.“

Adolf er sannfærður um að Íslendingar geti komist alla leið á EM, sérstaklega eftir sigurinn frábæra gegn Noregi. „Það sem er svo gaman að sjá er sjálfstraustið og tiltrúin sem er komin í þennan hóp. Þeir búa svo ofboðslega mikið að þessum árangri á Ólympíuleikunum. Núna vita þeir hvað þeir eru góðir. Ef allt gengur upp geta þeir unnið öll liðin í þessu móti. Þeir eru svakalega vel innstilltir og góðir þessir drengir.“ freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.