Innlent

Brot Ásbjörns ekki rannsakað

Helgi Magnús Gunnarsson
Helgi Magnús Gunnarsson
Viðurkennt lögbrot Ásbjörns Óttarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, verður ekki rannsakað af efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, enda gera refsiákvæði kröfu um að ásetningur hafi legið að baki, svo refsa megi fyrir brotið.

Ásbjörn hefur skýrt brotið fyrir sitt leyti og erfitt er að hrekja þær útskýringar, segir Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

„Það voru gefnar þær skýringar að þetta hefði verið gert í samráði við endurskoðanda félagsins, sem lést síðastliðið haust. Ég vil taka það fram að ég er ekki að leggja neitt mat á þá staðhæfingu eða að segja að látinn endurskoðandi beri ábyrgð á þessu. En í þessu tilfelli verður staðhæfingunni ekki hrundið án þess að ræða við endurskoðandann,“ segir Helgi.

Um er að ræða ólöglega arðgreiðslu sem Ásbjörn greiddi sjálfum sér úr Nesveri, útgerðarfyrirtæki þingmannsins. Þegar Ásbjörn viðurkenndi þetta opinberlega sagðist hann ekki hafa vitað betur.

Helgi Magnús segir jafnframt að lögin geri ráð fyrir því að hægt sé að leiðrétta slík mistök eftir á með endurgreiðslu að viðlögðum vaxtabótum, sem Ásbjörn mun hafa gert.- kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×