Innlent

Bjóða upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs

Már 
Vilhjálmsson
Már Vilhjálmsson
Nemendum í Menntaskólanum við Sund verður gert kleift að ljúka námi til stúdentsprófs á þremur árum í stað fjögurra frá og með næsta hausti. Þá verður tekið upp lotubundið bekkjarkerfi í stað hins hefðbundna. Önnum verður fjölgað úr tveimur í fjórar. Það þýðir, að sögn Más Vilhjálmssonar skólastjóra, að nemendur eru í færri námsgreinum á önn en eru í fleiri kennslustundum í greininni á meðan námið stendur yfir.

Breytingin felur jafnframt í sér að duglegum nemendum gefst kostur á að ljúka náminu á þremur árum, meðalnemendum verði auðvelt að ljúka á þremur og hálfu, hinir geti farið hægar yfir.

Með breytingunni fækkar brautum í skólanum, verða tvær, náttúrubraut og samfélagsbraut. Aukið framboð verður hins vegar á tungumálakennslu og nemendum gefist kostur á krefjandi málanámi á hvorri brautinni sem er. Sem fyrr þurfi nemar að ljúka ákveðnum kjarna en svo þurfi þeir að fara dýpra í nokkur fög. Nýbreytni sé að þeir geti valið til að mynda að sérhæfa sig í erlendu tungumáli með stærðfræði og eðlisfræði.

Nýnemar næsta haust munu hefja nám samkvæmt þessu nýja kerfi en hinir ljúka námi í gamla kerfinu. - sbt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×