Innlent

Meintir mansalsmenn áfram í gæsluvarðhaldi

Fimm Litháar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 26. janúar en þeir hafa setið í haldi lögreglunnar síðan um miðjan október vegna mansalsmálsins svokallaða. Þeir eru grunaðir um að hafa flutt hingað til lands 19 ára gamla stúlku frá Litháen og ætlað að selja hana í kynlífsþrældóm.

Allir mennirnir fimm hafa verið ákærðir auk eins Íslendings sem situr ekki í varðhaldi.

Í úrskurði Hæstaréttar Íslands segir að Litháarnir fimm tengist skipulagðri glæpastarfsemi í Litháen samkvæmt greiningadeild ríkislögreglustjórans. Þeir eru allir erlendir ríkisborgarar og því taldi hæstiréttur þörf á því að hefta frelsi þeirra þar sem þeir eru taldir líklegri til þess að flýja land verði þeir látnir lausir.

Stúlkan hefur þurft að þola kynferðisofbeldi í eigin landi en var flutt hingað með farþegaflugi í október. Hún varð mjög æst í flugvélinni sem kom lögreglu á sporið. Rannsóknin hefur verið gríðarlega umfangsmikil og teygt anga sína til Austur-Evrópu. Alls lágu þrettán manns undir grun í upphafi. Nú hafa sex verið ákærðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×