Innlent

Eyjafjallajökull: Framleiðsla gosefna fer hægt dvínandi

Framleiðsla gosefna virðist hafa farið hægt dvínandi í eldgosinu í Eyjafjallajökli ef mið er tekið af síðustu sjö dögum. Gosvirknin hefur þó gengið í bylgjum og búast jarðfræðingar á Veðurstofu Íslands við því að þær sveiflur haldi áfram. Ekkert bendir þó til þess að gosinu sé að ljúka að því er fram kemur í stöðuskýrslu frá Veðurstofunni og Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Gjóskufall mælist nú vestar en áður, var á Skógum í morgun og hófst á Þorvaldseyri um klukkan átta. Að sögn ábúenda er askan, sem er svört, að færast vestur á bóginn.

Gosóróinn er stöðugur og hefur nú verið svipaður síðustu þrjá sólarhringa. Sjö jarðskjálftar allt að tveimur stigum, hafa mælst á svæðinu síðasta sólarhringinn.

Drunur frá gosinu hafa heyrst víða um land, meðal annars í Vatnsdal, A-Húnavatnssýslu sem er í tæplega 200 kílómetra fjarlægð. Þá hafa drunurnar einnig heyrst í Borgarfirði, í Dölunum og í Vestmannaeyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×