Innlent

Skiptu sér bara af tónlistarhúsinu

Eina dæmið um að stjórnmálamenn hafi beitt bankana þrýstingi í lánveitingum eftir hrun virðist vera vegna tónlistarhússins í Reykjavík. Fréttablaðið/GVA
Eina dæmið um að stjórnmálamenn hafi beitt bankana þrýstingi í lánveitingum eftir hrun virðist vera vegna tónlistarhússins í Reykjavík. Fréttablaðið/GVA

Eina dæmið um pólitísk afskipti af málefnum bankanna virðist snúa að byggingu tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn. Þetta upplýsti Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka, í viðtali við Ingva Hrafn Jónsson í þættinum Hrafnaþingi á ÍNN í vikunni.

Aðspurður segir Finnur að forræði verkefnisins um byggingu tónlistarhússins hafi verið hjá ráðherrum mennta- og fjármála, en telur einingu hafa verið um það hjá ríki og borg að bygging hússins væri það langt komin að halda yrði áfram með hana. Finnur segir bankana hins vegar ekki hafa viljað koma að verkefninu án þess að fjármögnun væri tryggð. Þar hafi ríkið hlaupið undir bagga. Aðkoma ríkisins segir Finnur að hafi skipt miklu máli vegna áhættuflokkunar verkefna innan bankanna. Áhættuvægi verkefnisins verði minna og því bindi það minna eigið fé bankanna en lán til venjulegra fyrirtækja. Landsbankinn leiðir lánveitinguna til verkefnisins, en Arion banki og Íslandsbanki koma einnig að henni.

Í viðtali við Fréttablaðið í byrjun desember sagði Finnur hafa komið sér þægilega á óvart hversu mikinn frið bankinn hafi fengið fyrir væng stjórnmálanna og kvað stjórnmálamenn jafnvel meðvitaðri en áður um að slík afskipti væru óæskileg.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×