Lífið

Einkaþota og risaskjáir

Sænska söngkonan Robyn og breska hljómsveitin Hurts spila í Hafnarhúsinu á Airwaves-hátíðinni. Róbert Aron Magnússon skipuleggur komu þeirra.
Sænska söngkonan Robyn og breska hljómsveitin Hurts spila í Hafnarhúsinu á Airwaves-hátíðinni. Róbert Aron Magnússon skipuleggur komu þeirra.
Tónlistarunnendur hafa beðið spenntir eftir Iceland Airwaves-hátíðinni sem er nýhafin. Fjölmargar erlendar hljómsveitir streyma til landsins og kröfur þeirra eru stundum óraunhæfar.

Um áttatíu erlendar hljómsveitir koma fram á Iceland Airwaves-hátíðinni og eru þær byrjaðar að streyma til landsins með allt sitt hafurtask.

„Því stærri bönd, því metnaðarfyllri kröfur," segir Róbert Aron Magnússon sem hefur annast erlendu sveitirnar ásamt Agli Tómassyni. „Það eru búnar að vera alls konar kröfur um tæki og tól sem eru ekki til á Íslandi. Menn hafa tekið því misjafnlega en við erum búnir að semja um þetta allt."

Nokkuð umstang er í kringum tónleika sænsku söngkonunnar Robyn í Hafnarhúsinu á laugardaginn. Þrjú trommusett verða á sviðinu, þar af eitt rafmagnstrommusett. Einnig verða þar tvö stór hljómborðssett. „Við höfum séð á Twitter- og Facebook-samskiptasíðum hennar að hún er mjög spennt fyrir þessum tónleikum. Hennar fólk er dálítið kröfuhart en við erum að reyna að koma því niður á jörðina og láta það átta sig á því að við erum á Íslandi," segir Róbert.

Breska poppsveitin Hurts spilar í Hafnarhúsinu á föstudagskvöld. Hún flýgur til landsins á einkaþotu, hvorki meira né minna. Ellefu manns verða um borð, þar á meðal óperusöngvari sem syngur með sveitinni á tónleikum. „Þegar við bókuðum þá voru þeir ekki búnir að gefa út eina smáskífu eða plötu. Þetta eru menn sem var búið að bóka á venjulegu farrými, ekki einu sinni á Saga Class, og núna eru þeir að koma hingað með einkaþotu," segir Róbert, en þess má geta að fyrsta plata sveitarinnar kom út í síðasta mánuði. Ástæðan fyrir einkaþotunni er reyndar ekki sú að Hurts sé svona stór og merkileg með sig heldur er þotan kostuð af þýskri sjónvarpsstöð. „Þeir eru svo vinsælir í Þýskalandi. Þeir vildu fá þá í eitthvað viðtal á þýskri sjónvarpsstöð og eina leiðin til að láta það ganga var að fljúga með þá hingað yfir í einkaþotu. Þeir þýsku tækluðu það."

Þess má geta að umboðsmenn bæði Robyn og Hurts vinna saman og þeir ætla að nýta tækifærið og skoða norðurljósin þegar hingað kemur. „Þeir ætla að reyna að finna norðurljósin. Þeir eru búnir að bóka bílaleigubíl og ætla að fara á fínt sveitahótel og þefa þetta uppi," segir Róbert.

Mikið umstang verður einnig í kringum tónleika þýsku danssveitarinnar Moderat í Hafnarhúsinu á fimmtudagskvöld. Þrír risaskjáir verða hífðir upp fyrir tónleikagesti en sveitin er þekkt fyrir flott sjónarspil á sínum tónleikum.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.