Innlent

Ruslflokkur breytir engu fyrir sveitafélögin

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

„Ég get ekki séð að það breyti neinu í sjálfu sér," segir Halldór Halldórsson, formaður sambands íslenskra sveitafélaga, um lækkun lánshæfiseinkunnar sem fylgdi í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands um að synja lögum um ríkisábyrgð staðfestingu.

Það var Fitch Ratings sem breytti lánshæfiseinkunn Íslands í svokallaðan ruslflokk. Fram kom að það bitnaði verst á sveitafélögum og orkufyrirtækjum á Íslandi.

Að mati Halldórs hefur ný staða á lánamarkaði engu breytt fyrir íslensk sveitafélög sem eru mörg hver með há erlend lán.

„Sveitafélög hafa ekki fengið erlend lán frá því í október 2008," segir Halldór en aðspurður hvort sveitafélögin þurfi ekki endurfjármagna erlendu lánin sem þau hafa þegar tekið, svara Halldór að það hafi ekki heldur verið í boði frá því eftir hrun í október 2008.

„Þetta þýðir bara að þessi ákvörðun lengir þann tíma sem líður þangað til sveitafélögin komast á alþjóðalánamarkað, en þangað viljum við komast," segir Halldór. Hann bætir við að kannski nást betri samningar vegna Icesave og því verður biðin hugsanlega til góðs.

„En ef horft er til lengri tíma þá er ómögulegt að segja," segir Halldór um framtíð sveitafélaganna í sérstaklega erfiðu árferði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×