Fótbolti

Ruud Gullit ætlar að koma með HM heim til Hollands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud Gullit.
Ruud Gullit. Mynd/AFP
Ruud Gullit hefur ráðið sig sem forseta framboðs Hollendinga og Belga sem hafa sótt um að fá að halda HM í fótbolta árið 2018. Stjórnarmenn framboðsins samþykktu samhljóða að kjósa Gullit til starfans.

„Ruud hefur frábært orðspor innan knattspyrnuheimsins og bakgrunnur hans mun hjálpa okkar framboði. Það er æðislegt að hann sé tilbúinn að taka við þessu starfi," sagði Harry Been stjórnarformaður framboðs Hollendinga og Belga.

Það eru aðrir kunnir kappar að hjálpa til því menn eins Johan Cruyff, Marco van Basten og Clarence Seedorf koma til með að vinna í því að HM eftir átta ár verði haldin í Niðurlöndum.

„Ég hef alltaf velt því fyrir mér af hverju smærri þjóðirnar fá aldrei að halda viðburði eins og þennan. Ég ferðast mikið að undanförnu og mun nú halda því áfram til þess að tryggja okkur stuðning frá sem flestum þjóðum," sagði Ruud Gullit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×