Innlent

Fækkar í hópi reykingafólks

Talsvert dró úr reykingum Íslendinga á árinu 2009 og er svo komið að líklega hefur aldrei lægra hlutfall landsmanna reykt.

Samkvæmt nýlegri könnun Capacent fyrir Lýðheilsustöð reykja rúmlega fimmtán prósent landsmanna á aldrinum 15 til 89 ára daglega. Jafnt og þétt hefur dregið úr reykingum frá 1991 en þá reyktu um 30 prósent þjóðarinnar.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að dregið hafi úr tóbakssölu fyrstu ellefu mánuði ársins. Endanlegar sölutölur ársins 2009 liggja ekki fyrir.

Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Lýðheilsustöð, þakkar þessa þróun vitundarvakningu um skaðsemi reykinga. Fólk geri sér sífellt betur grein fyrir hve hættulegar reykingar eru heilsunni. Þá kunni hækkað verð á tóbaki að hafa sitt að segja en helsta ráðlegging Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Alþjóðabankans til að sporna við reykingum sé að hækka verð á tóbaki.

Í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi 2001 og nær til ársins 2010 var sett það markmið að hlutfall reykingafólks á aldrinum 18-69 ára verði undir fimmtán prósentum. Ljóst er að það markmið hefur náðst.

Viðar kveðst ekki vilja segja til um hver markmið nýrrar heilbrigðisáætlunar eigi að vera en mikilvægt sé að halda áfram á sömu braut. Til að svo geti orðið þurfi að fjölga úrræðum til að hjálpa fólki til að hætta að reykja og koma í veg fyrir að unglingar hefji reykingar.

- bþs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×