Skoðun

Þessa kýs ég en ekki þessa

Hjörtur Hjartarson skrifar

Ég mun ekki kjósa vini mína á stjórnlagaþing. Vinátta, ein og sér, dugar mér ekki. Alls ekki.

Ég mun heldur ekki kjósa þá sem ekkert bitastætt leggja fram nema rándýrar auglýsingar. Peningar og stjórnmál eru eitruð blanda og ávísun á sérhagsmunagæslu.

Ekki heldur mun ég kjósa þá sem ætla að endurvinna fjölmiðlafrægð sína fyrir stjórnlagaþingið og láta þar við sitja.

Rousseau hélt því fram að löggjafarvaldið tilheyrði almenningi og engum öðrum og að allar aðgerðir framkvæmdavaldsins væru, eða ættu að vera, lög. Þessar staðhæfingar hvíla á þeirri forsendu Rousseaus að fullveldið verði hvorki framselt né því skipt upp og að fullveldið sé aðeins framkvæmd almannaviljans. Hann gaf ekkert fyrir það sem við nefnum fulltrúalýðræði.

Við höfum fyrir löngu samþykkt fulltrúalýðræði sem aðferð til að ná fram eiginlegu lýðræði, og stjórnlagaþingið verður fulltrúasamkoma. Samt ættum við að huga að hugmyndum Rousseaus um almannaviljann.

Almannavilji Rousseaus er ekki það sem hver og einn vill útaf fyrir sig. Almannavilji tekur mið af sameiginlegum hagsmunum en vilji hvers einstaklings tekur mið af einkahagsmunum.

Flokkadrættir og sérhagsmunir spilla fyrir því að almannaviljinn nái fram að ganga:

„Til þess að tjáning almannaviljans komist vel til skila er því mikilvægt að ekki sé til sérstakt samfélag innan ríkisins og að sérhver borgari taki ákvarðanir eftir sannfæringu sinni."

Kenning heimspekingsins John Rawls um réttlæti á sér skíra samsvörun í þessari hugmynd Rousseaus, þar sem hver einstaklingur tekur afstöðu án þess að vita nokkuð um hverjir einkahagsmunir hans séu. Þannig myndu svonefndir kvótagreifar t.d. greiða atkvæði um kvótakerfið án þess að hafa hugmynd um að þeir ættu kvóta. Rawls talar um að greiða atkvæði bakvið tjald fávísi (e. veil of ignorance).

Á laugardag þurfum við öll að verða ábyrgir borgarar og hefja okkur yfir litla hégómlega egóið, sem sífellt gáir búralega að sérhagsmunum sínum. Á laugardag ber okkur að kjósa þau sem við í einlægni höfum trú á að muni hafa almannahagsmuni að leiðarljósi á stjórnlagaþinginu, og ekkert annað.

Leggjum dálítið á okkur til þess að finna fulltrúa á stjórnlagaþingið. Það er mikilvægt fyrir farsæld okkar sjálfra og þeirra sem munu þurfa að taka við íslensku samfélagi úr okkar höndum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×