Innlent

Hættur vegna anna á Alþingi

Kristján Þór Júlíusson hættir sem bæjarfulltrúi á Akureyri vegna fyrirsjánlegra anna á Alþingi. Fréttablaðið/Valli
Kristján Þór Júlíusson hættir sem bæjarfulltrúi á Akureyri vegna fyrirsjánlegra anna á Alþingi. Fréttablaðið/Valli

Kristján Þór Júlíusson alþingismaður er hættur sem bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. „Vegna ófyrirséðra anna í störfum Alþingis á þessu ári og fyrirsjáanlegum miklum önnum strax í upphafi næsta árs hef ég nú ákveðið að óska eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn Akureyrar frá og með næstkomandi áramótum,“ segir í bréfi Kristjáns sem lesið var upp á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Kristján hefur verið bæjarfulltrúi á Akureyri frá 1998 og var bæjarstjóri frá þeim tíma til 2006 og tók sæti á Alþingi eftir kosningar vorið 2007. „Ég hef í störfum mínum fyrir Akureyrarbæ lagt mig fram um að sinna þeim af trúmennsku og litið á það sem meginskyldu mína að leita þeirra leiða sem færar eru hverju sinni til að óskir og ábendingar bæjarbúa um eflingu bæjarfélagsins nái að verða að veruleika,“ segir í yfirlýsingu Kristjáns þar sem enn fremur kemur fram að hann muni ekki taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna bæjarstjórnarkosninganna í maí.

„Þessi ár hafa verið mér mikils virði og ég hef kynnst fjöldanum öllum af frábæru fólki, jafnt starfsmönnum Akureyrarbæjar sem öðrum íbúum og fólki víða um land og lönd.

Með bestu óskum um farsæld til handa „Höfuðborg hins bjarta norðurs“,“ segir að endingu í bréfi Kristjáns.

Næsti varafulltrúi sjálfstæðimanna verður fjaverandi að miklu leyti á næstunni svo þeir funda í dag um það hver tekur við bæjarfulltrúastöðunni af Kristjáni.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×