Innlent

Fjármálin eru sitjandi meirihlutum erfið

Stuðningur við Jón Gnarr og Besta flokkinn er mun meiri en við hefðbundin grínframboð, sem sýnir óánægju kjósenda með hefðbundna stjórnmálaflokka segir prófessor í stjórnmálafræði.Fréttablaðið/anton
Stuðningur við Jón Gnarr og Besta flokkinn er mun meiri en við hefðbundin grínframboð, sem sýnir óánægju kjósenda með hefðbundna stjórnmálaflokka segir prófessor í stjórnmálafræði.Fréttablaðið/anton

 Erfið staða í fjármálum sveitar­félaga gæti valdið sitjandi meirihlutum vandræðum í komandi sveitarstjórnarkosningum, og valdið þeim fylgistapi, segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Grétar hélt erindi um sveitarstjórnarkosningarnar, sem fram fara 29. maí næstkomandi, á fundi Félags stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands í gær.

Grétar sagði þar stefna í fremur slaka kosningaþátttöku, sérstaklega í þeim sveitar­félögum þar sem einungis Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri græn eru í framboði.

Búast má við ívið betri kosningaþátttöku í sveitarfélögum þar sem val er um önnur framboð sem tekið geta við óánægjufylgi. Gott dæmi um það er Besti flokkurinn, sem býður fram í Reykjavík, segir Grétar.

Hann segir að athygli veki að ríflega 40 prósent þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 í Reykjavík nýverið hafi ekki tekið afstöðu. Tæplega fjórðungur til viðbótar segist ætla að kjósa grínframboð. Aðeins þriðjungur segist ætla að kjósa það sem kalla megi hefðbundna stjórnmálaflokka.

Þetta endurpeglar óánægju kjósenda með hefðbundna stjórnmálaflokka, segir Grétar. Flokkarnir hafi trúlega aldrei notið minna trausts en nú.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×