Innlent

Magnús Tumi: Gosið að öllum líkindum búið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mynd tekin í gær af gosstöðvum á Fimmvörðuhálsi. Mynd/Hörður Vignir Magnússon
Mynd tekin í gær af gosstöðvum á Fimmvörðuhálsi. Mynd/Hörður Vignir Magnússon
Flest bendir til að eldgosinu á Fimmvörðuhálsi sé lokið, að minnsta kosti í bili. Síðdegis í gær var hætt að krauma í gígnum, sem enn var lifandi fyrr um daginn, og um svipað leyti hættu mælar að sýna minnstu merki um gosóróa.

Rigningarsuddi og dumbungur var yfir Fimmvörðuhálsi í morgun en síðustu lýsingar sjónarvotta af eldstöðinni eru frá því síðdegis í gær og í gærkvöldi. Þá flugu þyrluflugmenn yfir og lentu við svæðið, og segir Sigurður Pálmason hjá Þyrluþjónustunni, sem var þarna um hálffimmleytið, að þá hafi ekkert gos verið í gangi. Hætt var að bubbla í gígnum sem kraumaði fyrr um daginn. Þeir sáu reyndar niður í kviku í gegnum op á stóra gígnum djúpt niðri í nýju sprunginni þegar flogið var þar beint yfir en engin hreyfing var á kvikunni.

Jón Kjartan Björnsson, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, sá heldur ekkert gos í gangi um áttaleytið í gærkvöldi en sá þó niður í kvikuna í gegnum gígopið. "Mér sýnist gosið vera búið, því miður," sagði Jón Kjartan í morgun, og bjóst við að fljúga á svæðið eftir hádegi, en þar er nú að birta til.

Gosórói á mælum Veðurstofunnar var þegar í fyrradag orðinn mjög lítill en frá því um kvöldmatarleytið í gær hefur ekkert sést, að sögn Bergþóru Þorbjarnardóttur jarðeðlisfræðings. Þá sýna GPS-mælar að þensla Eyjafjallajökuls er að ganga til baka.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að gosið sé að öllum líkindum búið. Ekki sé þó hægt að gefa út dánarvottorð fyrr en sjúklingurinn sé örugglega skilinn við og menn geti ekkert sagt um það hvort atburðarásin haldi áfram og gosið taki sig upp aftur.

Tveir hópar vísindamanna frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands eru nú á leið á svæðið, báðir fótgangandi úr Þórsmörk. Annar fer upp á Morinsheiði og mun væntanlega skoða gígana og hraunið þar en hinn er á leið inn Hvannárgil til að skoða hraunið þar og meta gasútstreymi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×