Innlent

Stjórnendur fái ekki fyrirtækin á silfurfati

Skúli Helgason.
Skúli Helgason. Mynd/Anton Brink
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi vinnubrögð bankanna á Alþingi í dag og sagði ótækt að stjórnendur stórfyrirtækja sem hafi keyrt þau í þrot geti fengið sömu fyrirtæki á silfurfati. Bankarnir virðist einungis vilja hámarka arðsemi sína á skömmum tíma.

Skúli sagði að fram hafi komið alvarlegar upplýsingar um skuldameðferð bankanna. Upplýsingar sem bendi til þess að víða væri pottur brotinn.

„Eitt alvarlegasta dæmið sem nefnt hefur verið tengist meðferð Arion banka á fyrirtækinu Samskipum þar sem fyrri eigandi, sem mun hafa réttarstöðu grunaðs í umfangsmiklu fjársvikamáli, eiga að fá fyrirtækið á silfurfati að lokinni skuldameðferð," sagði þingmaðurinn.

Skúli sagði ljóst að bankarnir leggi fyrst og fremst til grundvallar ákvörðunum sínum að hámarka arðsemi sína til skemmri tíma. „Þeir virðast ekki gæta þess nægilega vel að læra af þeirri bitru reynslu sem steypti fjármálakerfinu í glötun og lagði þungar byrðar á herðar almennings í þessu landi. Mjög skortir á að þess sé freistað að auka viðskiptasiðferði eða trausts almennings á þessu ferli," sagði Skúli.

Hann sagði brýnt að setja skorður við því að stjórnendur stórfyrirtækja sem hafi keyrt þau í þrot geti ekki fengið sömu fyrirtæki í hendur að lokinni skuldameðferð bankanna. „Í öðru lagi verði þess að gætt að öll fyrirtæki yfir tiltekinni stærð fari í opið söluferli þar sem allir fjárfestar sitji við sama borð en fyrri eigendur og stjórnendur njóti ekki forréttinda. Í þriðja lagi að almenningur og fjölmiðlar hafi beinan aðgang að upplýsingum um skuldameðferð fyrirtækja þegar umfang afskrifta fer yfir ákveðið hlutfall."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×