Innlent

Lést í eldsvoða á Hverfisgötu

Karlmaður á þrítugsaldri beið bana í eldsvoða í íbúðarhúsi við Hverfisgötu í Reykjavík í nótt. Lögreglumenn sýndu mikið áræði þegar þeir brutu sér leið inn í húsið til að vekja íbúana.

Það var öryggisvörður frá Öryggismiðstöðinni sem sá reyk stíga upp af húsinu og lét lögreglu vita, sem þegar hélt á vettvang, auk þess sem kallað var á slökkvilið. Íbúar hússins vöknuðu ekki þegar lögreglumenn kvöddu dyra, svo þeir brutu sér leið inn og vöktu fólk á fyrstu tveimur hæðunum. Þrátt fyrir mikinn reyk héldu þeir upp í ris og sóttu þangað einn mann, en urðu að því búnu að hörfa undan eldi og reyk.

Í sama mund kom slökkviliðið á vettvang og fóru reykkafarar strax upp í ris, og sóttu þangað manninn, sem ekki hafði vaknað. Hann var þegar fluttur á slysadeild Landsspítalans, þar sem hann var úrskurðaður látinn. Hinir fjórir íbúarnir sluppu ómeiddir. Húsið, sem er tveggjahæða timburhús með risi og steyptum kjallara er stór skemmt ef ekki ónýtt. Eldsupptök eru ókunn, en eldurinn virðist hafa kviknað í risinu, enda logaði upp úr þakinu, þegar slökkviliðið kom á vettvang.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×