Innlent

Askan varasöm fyrir fólk með linsur

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Öskumistur lá eins og mara yfir gjörvöllu Suður- og Suðvesturlandi í dag og skyggni var lítið kringum gosstöðvarnar. Hætt er við að öskumistur af þessum toga verði viðvarandi vandamál í sumar, allt þar til snjóa tekur á ný í haust, segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands

 

Skyggni var lítið og rétt að sæist grilla í toppinn á Ingólfsfjalli í dag. Vegfarandi sagði að öskumistrið hefði verið slíkt á Suðurlandinu að það hefði verið eins og keyra inn í versta moldrok. Úti við, hefði hreinlega verið vont bragð af loftinu. Að sögn Hrafns Guðmundssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, náði öskumistrið í dag frá svæðinu kringum gosstöðvarnar, yfir allt suðvesturhornið, Borgarfjörðinn og Borgarnes.

 

Svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu í dag jafnaðist á við mengun á góðu gamlárskvöldi, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Kvikmyndatökumaður fréttastofu tók myndir frá Öskjuhlíð nú síðdegis - þaðan rétt sást í Hótel Sögu og helstu kirkjuturna bæjarins en mistrið lá eins og svartaþoka yfir borginni. Skyggni í Reykjavík fór niður í 1500 metra.

Þrátt fyrir skort á skyggni hafði öskumistrið engin áhrif á flugsamgöngur en vélarnar voru fljótar að komast upp fyrir svifrykið, samkvæmt upplýsingum frá Isavía. Fólki með viðkvæm öndurfæri er bent á að forðast útiveru í dag og jafnvel á morgun.

Þá hafði gleraugnakaupmaður samband við fréttastofu og sagði að fólk með linsur fyndi til óþæginda í öskumistrinu en askan er sérstaklega varasöm fyrir fólk með linsur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×