Innlent

Dró úr klaki um 40% í tilraun

Stórþorskur Stærsti þorskurinn var að hrygna undan Suðurlandi meðan Eyjafjallajökull gaus.
Stórþorskur Stærsti þorskurinn var að hrygna undan Suðurlandi meðan Eyjafjallajökull gaus. Fréttablaðið/JSE
Gosefni frá Eyjafjallajökli gætu haft neikvæð áhrif á niðurstöðu hrygningar hjá þorski undan Suðurlandi, samkvæmt rannsókn sem gerð var í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunarinnar í Grindavík.

Frjóvguð þorskhrogn voru sett í sjó sem tekinn var undan Markarfljóti, undan Svaðbælissjó og á Faxaflóa. Sjórinn frá tveimur fyrstu stöðunum var gruggugur vegna gosefna, sem borist höfðu með flóðvatni. Sýnin voru tekin þegar hrygning stóð sem hæst.

Gerðar voru tvær tilraunir, í annarri voru gosefnin látin falla til botns og komu þá engin áhrif fram á hrygningu en í hinni voru gosefnin í stöðugri upplausn í sjónum. Komu þá fram mikil áhrif í samræmi við vaxandi styrk gosefna. Klakið var 12% minna í Markarfljótssjónum og 40% minna í Svaðbælissjónum en í sjó frá Faxaflóa. Þyngd lirfa var 15% minni í Svaðbælissjó en ómenguðum sjó úr Faxaflóa.

Agnar Steinarsson hjá Hafrannsóknastofnun, lagði áherslu á það í samtali við Fréttablaðið að þótt þessar niðurstöður bendi til áhrifa á hrygningu þyrfti viðameiri rannsókn til að fullyrða endanlega að gosið hafi áhrif á hrygningu þorsksins undan Suðurlandi. -pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×