Innlent

Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði vísað úr landi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ GVA.
Birgitta Jónsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ GVA.
Birgitta Jónsdóttir mun í dag mæla fyrir þingsályktunartillögu þess efnis að fjármálaráðherra láti vinna efnahagsáætlun án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Meðflutningsmenn Birgittu eru félagar hennar úr Hreyfingunni auk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Eyglóar Harðardóttur og Höskuldar Þórhallssonar úr Framsóknarflokknum.

Í greinagerð með tillögunni segir að forsendur hafi gjörbreyst frá því að ákveðið var að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ljóst að ekki sé hægt að treysta á hlutleysi sjóðsins eða að hann framfylgi yfirlýstum markmiðum sínum um að aðstoða þjóðir í fjármála- og gjaldeyriskreppu. Flutningsmenn telja að það hafi sýnt sig að Bretar og Hollendingar hafa misbeitt sjóðnum til að reyna að knýja fram þá niðurstöðu sem þeim hugnast varðandi svokallaðar Icesave-skuldbindingar

Í tillögunni er gert ráð fyrir að skilgreindar verði nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs, aðgerðaáætlun útbúin og henni fylgt eftir. Leitað verði liðsinnis færustu erlendra sérfræðinga á sviði hagvísinda við mótun og framkvæmd áætlunarinnar til að tryggja þann trúverðugleika efnahagsstjórnar landsins sem er nauðsynlegur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×