Innlent

Breytt viðbúnaðarstig vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi

Mynd tekin kl. 13:15 í dag af gosstöðvum á Fimmvörðuhálsi í könnunarflugi Þyrluþjónustunnar. Mynd/Hörður Vignir Magnússon
Mynd tekin kl. 13:15 í dag af gosstöðvum á Fimmvörðuhálsi í könnunarflugi Þyrluþjónustunnar. Mynd/Hörður Vignir Magnússon
Ákveðið hefur verið að færa viðbúnað vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi niður um eitt háskastig. Viðbúnaður hefur verið á hæsta háskastigi, það er á neyðarstigi, en mun frá og með deginum í dag færast á svokallað hættustig. Þær takmarkanir á umferð sem áður hafa verið kynntar eru enn í fullu gildi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

Í reglugerð um háskastigin er hættustig skilgreint á þessa leið: „ Ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða."

Í tilkynningunni segir að þetta breyti því ekki að á meðan gos sé í gangi eða líkur á að það byrji aftur sé þörf á fullri gát við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.

Þær takmarkanir á umferð sem áður hafa verið kynntar eru í fullu gildi. Öll umferð innan eins kílómetra radíus við gosstöðina er bönnuð og einnig umferð um Hrunagil, Hvannárgil og Eyjafjallajökul. Umhverfis gosstöðina er skilgreint hættusvæði fimm kílómetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×