Innlent

Norðmenn birta upplýsingar um skatta á netinu

Skattaupplýsingar eru víðar umdeildar en á Íslandi. Fréttablaðið/Stefán
Skattaupplýsingar eru víðar umdeildar en á Íslandi. Fréttablaðið/Stefán
Upplýsingar um skattamál einstaklinga eru víðar þrætuepli en hér á landi, en í síðustu viku birtu skattayfirvöld í Noregi allar upplýsingar um skattgreiðslur norskra borgara á vefnum.

Þessi siður er umdeildur, en birting gagna um skattgreiðslu einstaklinga tíðkast víðast hvar á Norðurlöndum og á sér langa sögu í Noregi, að því er fram kemur á vef Aftenposten.

Í Noregi liggja upplýsingarnar fyrir í afgreiðslum skattayfirvalda og eru einnig öllum opnar á vefnum í ótakmarkaðan tíma.

Fyrirkomulagið í Svíþjóð og Finnlandi er í ætt við það sem viðgengst hér á landi þar sem upplýsingarnar eru opinberar, en er ekki dreift í stafrænu formi og eru ekki aðgengilegar á vefnum.

Danmörk sker sig úr hópnum þar sem opinber birting þessa upplýsinga þykir brjóta í bága við réttindi einstaklingsins.

Umræðan í Noregi er í grófum dráttum svipuð og hér á landi þar sem tvö meginsjónarmið takast á, það er rétturinn til friðhelgi einkalífsins gegn því að þetta fyrirkomulag veiti almenningi aðhald og vinni að því að allir leggi það sem þeim ber til samfélagsins.

Þó eru taldar líkur á að aðgangur verði skertur næsta ár. - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×