Innlent

Meiri þekking við Grænland

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir Mynd/GVA

Meiri þekking á olíujarðfræðinni við Grænland en við Ísland er helsta skýring þess að olíuleitarfyrirtæki höfðu meiri áhuga á útboði Grænlendinga á sérleyfum til olíuleitar en útboði Íslendinga.

Þetta kemur fram í svari iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar Framsóknarflokki.

Olíuleit hefur staðið yfir við Grænland með hléum frá 1969 og hafa umsvifin sveiflast í takt við olíuverð.

Frá árinu 1992 hafa verið haldin fjögur útboð á sérleyfum til olíuleitar og -rannsókna og tíu slík leyfi veitt. Þrettán umsóknir um þátttöku í útboði sem fram fer í maí liggja fyrir.

Sem kunnugt er var í fyrsta sinn efnt til útboðs sérleyfa til olíuleitar á Drekasvæðinu við Ísland fyrir nokkrum mánuðum. Tvær umsóknir bárust en báðar voru dregnar til baka.

Í svarinu kemur fram að ekki hafi enn fundist olía við Grænland í vinnanlegu magni, en ummerki um olíu hafi fundist í borkjörnum á landi.

Þá segir að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að halda áfram að byggja á reynslu nágrannaþjóða. Reynslan sýni að olíuleit sé langt ferli og að framgangur hennar tengist aðstæðum í heiminum á hverjum tíma.- bþs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×