Innlent

Hnetulaga halastjarna skoðuð

Deep Impact tók þessa mynd um það leyti þegar geimfarið var hvað næst halastjörnunni á fimmtudaginn klukkan 13.59.mynd/nasa/jpl/umd
Deep Impact tók þessa mynd um það leyti þegar geimfarið var hvað næst halastjörnunni á fimmtudaginn klukkan 13.59.mynd/nasa/jpl/umd
Deep Impact geimfarið flaug framhjá halastjörnunni Hartley 2 í aðeins 700 kílómetra fjarlægð í gær. Halastjarnan er ólík öllum halastjörnum sem skoðaðar hafa verið úr návígi til þessa.

Deep Impact geimfarið var næst halastjörnunni klukkan 13.50 í gær. Fyrstu nærmyndirnar bárust svo til jarðar skömmu eftir klukkan þrjú. Geimfarið og halastjarnan voru þá í um 23 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni.

Halastjarnan, sem er rétt um 1,5 til tveir kílómetrar á lengd, minnir einna helst á hnetu eða hundabein. Hún virðist slétt og samfelld fyrir miðju en stráð hnullungum á hvorum endanum.

Rannsóknir á halastjörnum þykja mjög mikilvægur liður í að læra um uppruna sólkerfisins. Í halastjörnum er elsta efni sem finnst í sólkerfinu enda eru þær leifar frá myndun sólkerfisins fyrir um 4.600 milljón árum.

Halastjörnur eru enn fremur taldar leika lykil­hlutverk í uppruna vatns á jörðinni. Þær eru nefnilega að mestu leyti úr ís og þegar jörðin var í mótun rigndi halastjörnum yfir jörðina, segir á stjornuskodun.is. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×