Innlent

Formaður viðskiptanefndar gagnrýnir viðskiptaráðherra

Formaður viðskiptanefndar gagnrýnir viðskiptaráðherra harkalega fyrir aðgerðaleysi gagnvart skuldugum heimilum og málefnum HS Orku á Fésbókarsíðu sinni. Ráðherrann segist ekki ætla að elta ólar við ummæli af slíku tagi.

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Vinstri-grænna, gagnrýndi Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra harðlega á Fésbókarsíðu sinni um helgina. Þar sagðist hún ekki ganga í takt við þjóðina og að hún deildi ekki hrifningu hennar á utanþingsráðherrum.

Lilja segir: „Mér finnst efnahags- og viðskiptaráðherra ekki hlusta á kjósendur þegar hann talar gegn leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól. Auk þess neitar hann að beita ráðherravaldi sínu til að koma í veg fyrir að skúffufyrirtæki eignist HS Orku. Í mínum huga skipta baráttumál meira máli en persónur en þjóðin virðist á öðru máli."

Hún skilur að auki eftir ummæli á síðunni og segir ráðherrann ekki hafa lagt fram frumvörp til að taka á skuldavanda heimilanna og bætir við að félags- og tryggingamálaráðherra hafi tekið að sér verkefni viðskiptaráðherra.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur fátt um gagnrýni Lilju að segja.

Lilja vildi ekki tjá sig nánar um ummælin þegar fréttastofa leitaði eftir því og svaraði ekki hvort hún vildi fá annan viðskiptaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×