„Það endaði einn á spítala síðast – ofkældist næstum því. Það var reyndar ég. Ég fór aðeins of langt út í,“ segir Karl West, formaður sjósundsselskapar Kaffibarsins.
Hópurinn hittist tvisvar í viku og á mánudag endaði ferðin á því að formanninum var ekið í sjúkrabíl á spítala. „Ég ofreyndi mig – dreif ekki alveg til baka,“ segir Karl eldhress, enda búinn að endurheimta 36,8 gráðu líkamshita þegar Fréttablaðið náði í hann. Hann telur að líkamshitinn hafi farið niður í 34 gráður þegar hann komst upp úr ísköldum sjónum við illan leik. „Ég fór inn og var settur í mörg teppi og svo var hringt á sjúkrabíl. Það tók klukkutíma að ná í mig hita aftur.“
Sjósundsselskapur Kaffibarsins er um tveggja mánaða gamall hópur og samanstendur af velunnurum og starfsmönnum Kaffibarsins, sem er einn vinsælasti skemmtistaður borgarinnar. Hópurinn hittist á mánudögum og miðvikudögum og fer í samfloti frá Kaffibarnum í Nauthólsvík. „Þetta er opið félag fyrir þá sem óska. Við erum ekkert strangir,“ segir Karl og neitar því að nýir meðlimir þurfi að ganga í gegnum einhvers konar vígsluathöfn.
Karl segist ekki óttast að fara aftur „í hafið“ eins og hann orðar það í kvöld. „Þetta er eins og þegar maður dettur af hestbaki, það fyrsta sem maður gerir er að fara aftur á bak,“ segir hann. „Núna þekki ég takmörk mín. Ég get tekið sirka 90 sundtök og þá er ég örmagna. Ég hlakka til og fer galvaskur út í.“ - afb