Innlent

Smábátar streymdu til strandveiða

Litlir fiskibátar streymdu í hundraða tali til svo nefndra strandveiða í nótt og í morgun og voru yfir 800 fiskiskip af öllum stærðum skráð á sjó við landið. Samanborið við 300 til 400 skip að meðaltali á dag allt árið.

Fiskistofa hefur þegar fengið tæplega 500 umsóknir um strandveiðileyfi í sumar sem er talsvert meira en í fyrrasumar. Veiðitímanum er skipt í fjögur eins mánaðar tímabil og í fjögur svæði út af ströndum landsins. Langmest sókn er í leyfi á Breiðafirði og út af Vestfjörðum og í næsta sæti kemur suðurströndin.

Sem kunnugt er hefur það magn sem færa má að landi verið minnkað úr 800 kg. á dag í 650 kg. Þá má aðeins veiða fjóra daga í viku.

Margir sjómenn, sem róa þessum bátum, eru ekki atvinnumenn, þótt þeir hafi réttindi, og margir bátanna hafa verið lítið notaðir þannig að búast má við einhverjum erfiðleikum. Til þess að bregðast við þessu fengu björgunarsveitir á Austurlandi nýverið til landsins tvo harðbotna björgunarbáta, sem verða gerðir út frá Neskaupstað og Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu frá sveitunum segir að með þessu séu þær að búa sig undir stóraukna smábátaútgerð sem fylgi strandveiðunum. Bátarnir eru keyptir notaðir af systursamtökum Slysavarnafélags Landsbjargar í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×