Enski boltinn

Grant ósáttur með svikin loforð - hættir þó ekki

Ómar Þorgeirsson skrifar
Avram Grant.
Avram Grant. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Avram Grant hjá botnliði Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni er allt annað en sáttur með forráðamenn félagsins þessa dagana en þeir virðast hreinlega vera í tómu basli við að halda félaginu frá gjaldþroti.

Grant segir að þó svo að ekki hafi verið staðið við það sem honum var lofað þá sé það ekki í hans eðli að gefast upp og hætta.

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka þetta starf að mér var meðal annars sú að mér var lofað að ég þyrfti ekki að selja neinn leikmann í janúar og gæti bætt við fjórum nýjum leikmönnum. Það hefur augljóslega ekki gerst," segir Grant í viðtali við The Guardian.

Portsmouth seldi varnarmanninn Younes Kaboul til Tottenham á 5 milljónir punda og markvörðinn Asmir Begovic til Stoke á 3,25 milljónir punda en stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hirti meira en 2 milljónir punda af þessum sölum til þess að setja upp í ógreiddar skuldir Porstmouth vegna kaupa á Glen Johnson og Tommy Smith frá Chelsea og Watford á sínum tíma.

Forráðamenn Portsmouth náðu heldur ekki að borga 9 milljón punda greiðslu sem komin var á gjalddaga til Alexandre Gaydamak, fyrrum eiganda félagsins, en félagið skuldar honum 30 milljónir punda í heildina.

Hann mun þó ekki neyða Portsmouth til þess að fara í greiðsluþrot þar sem hann á meiri möguleika á að fá skuldina greidda ef félagið heldur rekstri áfram.

Þá hefur verið greint frá því að Portsmouth hefur í fjórgang á þessu tímabili mistekist að greiða leikmönnum sínum og öðrum starfsmönnum laun á réttum tíma en enn hefur félagið ekkert greitt fyrir janúarmánuð.

Það er því ljóst að vinnuumhverfi Grant er ekki eftirsóknarvert en hann kveðst ætla að halda áfram að berjast við að hjálpa félaginu til þess að bjarga sér frá falli. „Ég er ekki vanur að gefast upp og tek á vandamálunum þegar þau koma fram. Ég er hins vegar svekktur með svikin loforð," segir Grant.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×