Innlent

Svandís ekki með frumvarp um eignarhald í smíðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frumvarpið er tengt sölu á HS Orku til Magma. Mynd/ Valgarður.
Frumvarpið er tengt sölu á HS Orku til Magma. Mynd/ Valgarður.
Umhverfisráðherra er ekki með frumvarp í smíðum um að eignarhald á orkufyrirtækjum verði breytt þannig að einkaaðilar megi ekki eiga meira en þriðjung í orkufyrirtækjum eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum í vikunni. Þetta segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Greint var frá því fyrr í vikunni að Svandís væri að undirbúa frumvarp þessa efnis og var málið tengt kaupum Magma á HS Orku. Samkvæmt reglugerð um stjórnarráðið er það hins vegar iðnaðarráðherra en ekki umhverfissráðherra sem fer með orkumál. Umhverfisráðherra getur því ekki lagt fram frumvarp þessa efnis.

„Ég hef rætt þetta við umhverfisráðherra og það fór einhver misskilningur af stað um það að hún væri að vinna eitthvað frumvarp. Það er ekki rétt, heldur hafði hún hafi hug á því að taka þetta mál upp í hópi ráðherra sem hafa með orkumál og atvinnumál að gera," segir Katrín aðspurð um málið. Hún telur nauðsynlegt að fara yfir þetta mál með yfirveguðum hætti.

Ekki náðist í Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra við vinnslu þessarar fréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×