Innlent

Hámarksupphæð var tekin út úr reglum

Páll Halldórsson.
Páll Halldórsson.

Stjórn fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík lagði það til árið 2006, fyrir prófkjör vegna alþingiskosninga 2007, að prófkjörskostnaður mætti ekki fara fram úr einni milljón króna. Einnig áttu frambjóðendur að sýna háttvísi í baráttunni og gera grein fyrir kostnaði að henni lokinni.

„Þessu var breytt eftir umræður á fulltrúaráðsfundunum tveimur og upphæðin tekin út. Stjórnin var með þessa tillögu um milljón og það var mikil umræða um þetta. En það voru ýmsir sem töldu að það yrði erfitt að fylgja því eftir," segir Páll Halldórsson, sem þá var formaður fulltrúaráðsins. Fólk hafi óttast að reglan yrði brotin. Páll segist aðspurður ekki muna hverjir hafi haft af þessu mestar áhyggjur.

Samkvæmt samþykktu reglunum átti þó að stilla kostnaði í hóf og skila yfirliti um tekjur og gjöld.

Spurður hvort þessum reglum hafi verið fylgt eftir, segir Páll: „Ég var ekki í kjörstjórninni og veit ekki hvernig það var, en ég geri ráð fyrir því að menn hafi eitthvað skoðað þetta." Hann muni ekki eftir sérstakri umræðu um það.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×