Enski boltinn

Bridge hættur með landsliðinu - fer ekki á lokakeppni HM

Ómar Þorgeirsson skrifar
Wayne Bridge.
Wayne Bridge. Nordic photos/AFP

Vinstri bakvörðurinn Wayne Bridge hjá Manchester City hefur nú staðfest það sem The Guardian hélt fram í morgun að hann gefi ekki lengur kost á sér í enska landsliðið.

Bridge er búinn að vera áberandi í fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikur eftir að upp komst um framhjáhald John Terry ,fyrrum liðsfélaga hans hjá Chelsea, með barnsmóður og fyrrum kærustu vinstri bakvarðarins.

Bridge sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins rétt í þessu og útskýrir þar ákvörðun sína.

„Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að gefa ekki lengur kost á mér í enska landsliðið. Ég hef alltaf verið mjög stoltur af því að spila fyrir Englands hönd en eftir atburði síðustu vikna og umfjöllun fjölmiðla hef ég ákveðið að það sé best fyrir mig og enska landsliðið að ég dragi mig til hliðar.

Ég hef þegar tilkynnt landsliðsþjálfaranum og aðstoðarmönnum hans um ákvörðun mína og óska liðinu alls hins besta í Suður-Afríku næsta sumar," segir í yfirlýsingu frá Bridge.

Fyrir utan brotthvarf Bridge úr landsliðshópi Englands er alls óvíst með þátttöku Ashley Cole á lokakeppni HM vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir og því útlit fyrir að vinstri bakvarðastaðan ætli að verða vandræðaefni fyrir landsliðsþjálfarann Fabio Capello.

Eins og staðan er núna þykja Leighton Baines hjá Everton og Stephen Warnock hjá Aston Villa vera líklegustu kostirnir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×