Innlent

Vegagerðin dregur stórlega úr þjónustu

Þar sem fjármagn til viðhalds og þjónustu vegakerfisins verður töluvert minna en á síðustu árum er óhjákvæmilegt annað en að draga úr viðhaldi og sumarþjónustu í ár hjá Vegagerðinni.

Á malarvegum verður því minna heflað í sumar, rykbinding og mölburður verður minni. Í viðhaldi bundinna slitlaga verður í meira mæli gert við hluta vegar, í stað heilla yfirlagninga svo dæmi séu tekin.

Miðað við þær upphæðir sem er að finna í samgönguáætlun, sem er enn í meðförum Alþingis, verða framlög til viðhalds og þjónustu í ár um 10% lægri í krónum talið en í fyrra. Fjárveitingar höfðu þá lækkað bæði árin 2008 og 2009.

Á vef Vegagerðarinnar segir að það segir sig sjálft að á næstu árum mun minna viðhald koma fram í verra ástandi vegyfirborðs (slitlaga).

Yfirborð vega verður ósléttara og bundin slitlög munu verða sprungnari, sem þýðir að vatn mun eiga greiðari leið niður í berandi hluta vegarins sem leiðir af sér minna burðarþol.

Á malarvegum mun ganga enn frekar á unnið efni malarslitalagsins en heflun er of víða komin niður í sjálft burðarlagið, sem þýðir skert burðarþol og grófara vegyfirborð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×