Fótbolti

Michael Essien missir af HM vegna hnémeiðslanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Essien i leik með Gana.
Michael Essien i leik með Gana. Mynd/AFP

Michael Essien verður ekki með Gana á HM í Suður-Afríku sem hefst í næsta mánuði. Knattspyrnusamband landsins tilkynnti það í dag að hann sé ekki orðinn góður af hnémeiðslunum sem héldu honum frá seinni hluta keppnistímabilsins með Chelsea.

Michael Essien fór í gegnum ítarlega læknisskoðun þar sem voru sérfræðingar frá bæði knattspyrnusambandi Gana og Chelsea. Það er þeirra mat að Essien verði ekki orðinn leikfær fyrr en í lok júlí. Hann ætti því að ná næsta tímabili með Chelsea.

Essien meiddist í Afríkukeppninni í janúar og spilaði ekkert með Chelsea eftir það. Hann lék aðeins 14 deildarleiki með liðinu á tímabilinu.

Þetta er mikið áfall fyrir landslið Gana enda er Essien fyrirliði liðsins og algjör lykilmaður á miðju liðsins. Gana er með Þýskalandi, Ástralíu og Serbíu í riðli á HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×