Lífið

Óttast ekki hlýjan býflugubúning

Steinn Ármann Magnússon og Álfrún Örnólfsdóttir í hlutverkum Fúsa Bý og Dísu ljósálfs.
fréttablaðið/vilhelm
Steinn Ármann Magnússon og Álfrún Örnólfsdóttir í hlutverkum Fúsa Bý og Dísu ljósálfs. fréttablaðið/vilhelm
„Þetta er rosalega fyndinn búningur en hann er mjög hlýr,“ segir Steinn Ármann Magnússon sem leikur Fúsa Bý í söngleiknum Dísa ljósálfur sem verður frumsýndur í Austurbæ annan laugardag.

Stutt er síðan búningarnir fyrir sýninguna voru tilbúnir og var það María Ólafsdóttir, sem hefur unnið við Latabæ, sem sá um hönnunina. Sigrún Einarsdóttir annaðist saumaskapinn. „Fúsi Bý er fyrsti vinur hennar Dísu og fylgir henni í gegnum verkið,“ segir Steinn Ármann, sem hefur engar áhyggjur af þessum hlýja býflugubúningi. „Mér kemur til með að verða svolítið hlýtt í honum. Ég leik nú aðallega í fyrri partinum en á svo þrjár innkomur eftir hlé, þannig að ég get komið mér úr þessu í millitíðinni.“

Persónan Fúsi Bý er óvenjuleg því hún er eiginlega bæði karl- og kvenkyns. „Hann veit ekki alveg sjálfur hvort hann er. Hann talar um sjálfan sig stundum í kvenkyni og stundum í karlkyni,“ segir Steinn sem er spenntur fyrir frumsýningunni. „Það er tæpur hálfur mánuður í þetta og þetta er bara allt að skríða saman. Þetta er skemmtileg sýning og skemmtilegur hópur sem ég er að vinna með.“

Eins og komið hefur fram leikur Álfrún Örnólfsdóttir Dísu ljósálf. Leikstjóri og handritshöfundur verksins er Páll Baldvin Baldvinsson og Gunnar Þórðarson semur tónlistina. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.