Innlent

Íslenski fjárhundurinn á risasýningu í Bandaríkjunum

Guðni Ágústsson, formaður deildar íslenska fjárhundsins, ásamt tíkunum Ylfu og Sunnu. Sérstök ættarnöfn þeirra eru Íseyjar-Ylfa og Keilis-Sunna. Guðni fagnar fréttunum af landvinningum íslenska fjárhundsins í Bandaríkjunum.
fréttablaðið/anton
Guðni Ágústsson, formaður deildar íslenska fjárhundsins, ásamt tíkunum Ylfu og Sunnu. Sérstök ættarnöfn þeirra eru Íseyjar-Ylfa og Keilis-Sunna. Guðni fagnar fréttunum af landvinningum íslenska fjárhundsins í Bandaríkjunum. fréttablaðið/anton
„Þetta er mjög mikilvæg sýning fyrir framtíðarvinsældir íslenska fjárhundsins í Bandaríkjunum,“ segir Kristina Moore, fjölmiðlafulltrúi hundasýningar Kennel-klúbbsins.

Íslenski fjárhundurinn verður frumsýndur á hundsýningu Kennel-klúbbsins sem hefst í Philadelphiu í Bandaríkjunum í næstu viku. Sýningin er ein sú stærsta í heimi og er sýnd árlega á NBC-sjónvarpsstöðinni á þakkargjörðardaginn, sem nú ber upp á 20. nóvember. Búist er við að yfir 20 milljónir manna fylgist með útsendingunni.

„Þetta er ein virtasta hundasýning Bandaríkjanna,“ segir Moore. „Keppnin er föst hefð í lífi fjölmargra Bandaríkjamanna á þakkargjörðardaginn. Þeir horfa á Macy‘s-skrúðgönguna og hundasýninguna eftir á.“ Um 4.000 hundar verða til sýnis á sýningunni, en ásamt íslenska fjárhundinum verða fimm ný kyn frumsýnd.

Guðni Ágústsson, formaður deildar íslenska fjárhundsins, segir að þetta séu toppfréttir fyrir kynið. „American Kennel Club er stærsti klúbburinn, þó að þeir séu fleiri stórir í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Forsagan er sú að það er búið að taka langan tíma að fá hundinn viðurkenndan þarna úti. Það hafa verið svona tveir til þrír stofnar að rífast, en þeir sem eru að standa í þessu núna höfðu samband við okkur og óskuðu eftir leiðbeiningum – að við segðum hvernig heimalandið vildi að hundurinn liti út.“

Kynið var viðurkennt 1. júlí síðastliðinn. Guðni segir að þar hafi stórt skref verið stigið og bætir við að þau í deild íslenska fjárhundsins hafi verið afar ósátt við hvernig málum var háttað áður en ný stjórn tók við í ISAA, Icelandic Sheepdog Association of America. „Öll hundakyn í heiminum hafa ákveðin ræktunarmarkmið sem segja til um hvernig hundurinn eigi helst að líta út,“ segir Guðni. „Við viljum að hundurinn sé viðurkenndur um allan heim, en við viljum að hann sé viðurkenndur eins og við segjum að hann eigi að vera.“

atlifannar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×