Söngkonan og lagahöfundurinn Ólöf Arnalds fær átta í einkunn af tíu mögulegum fyrir plötu sína Innundir skinni á bandarísku tónlistarsíðunni Pitchfork.
„Það er ekki hægt annað en að heillast af tónlist Ólafar en það þarf einbeitingu til að elska hana,“ segir gagnrýnandinn. Platan er sögð litrík og tónlistarlega flókin sem skilji gríðarmikið eftir sig ef hlustandinn er þolinmóður. Það sama eigi við um síðustu plötu bandarísku söngkonunnar Joanna Newsom, Have One On Me.
Dómur Pitchfork er enn einn jákvæði dómurinn um Innundir skinni, sem er önnur plata Ólafar. Platan fékk fjórar stjörnur í tónlistartímaritunum Mojo, Uncut og Spin og einnig hér í Fréttablaðinu.
Ólöf er þessa dagana á tónleikaferð um Frakkland til að fylgja plötunni eftir. Um miðjan mánuðinn fer hún síðan til Bandaríkjanna þar sem fjöldi tónleika er fyrirhugaður. - fb

